Dæmigerður mánudagur í gær

Vakna hálf sjö (tókst ekki, skreið fram úr 5 mínútur yfir sjö), hjóla í vinnuna þegar Karitas er komin í skólann (einn auka kaffibolli með Guðnýju fyrst).  Vinna til 19:00, hjóla í Sölvhól á Hljómeykisæfingu, syngja til 22:00, spjalla smá eftir að hafa skipt í hjólafötin og hjóla svo heim.  Kominn heim 23:00.

Af einhverjum ástæðum hafa þriðjudagsmorgnar tilhneigingu til að vera erfiðir…

Advertisements

Smá tilraun

Sér einhver þessa færslu?  Það eru liðin rétt tæp tvö ár frá því síðasta færsla kom og af einhverjum ástæðum langar mig að gera eina tilraun enn til að halda lífi í síðuómyndinni.  Ef einhver les þetta og hefur áhuga á að lesa meira má gjarnan láta vita í kommenti.

Hef ég ekki sagt það áður að desember sé galinn?

Hann er það að minnsta kosti í ár.  Tónleikar, æfingar, hellingur af vinnu, amma allra ælupesta og fleira skemmtilegt hefur séð til þess að ég hef varla haft tíma til að líta hér inn, hvað þá að skrifa.  Nú er hins vegar hægt að segja frá því að allt er að kalla tilbúið fyrir jólin, Karitas steinsefur (sem er mesta furða miðað við hvað hún er orðin yfirspennt fyrir morgundeginum) og Guðný er úti í kirkju að æfa sig fyrir jólamessurnar.  Þegar hún kemur til baka þarf ég svo að fara út og æfa mig fyrir Bucinae Boreales prógrammið á annan í jólum (Bach og Gabrieli ásamt öðru góðgæti, í messu í Fella- og Hólakirkju klukkan 11:00) og fyrir gamlárskvöld (þegar ég mun spila með Guðnýju í og á undan messunni).  Að öðru leyti má fara að anda út eftir mánuðinn, sérstaklega þar sem nú tekur við laaangt frí! 🙂

Hjólamont!

Í byrjun september fór ég að nota strava.com til að halda utan um hjólreiðarnar (bæði fyrir hjólreiðar til og frá vinnu og það sem ég hjóla mér til skemmtunar).  Á rétt rúmu 3ja mánaða tímabili (3. september til 6. desember er ég kominn með 1000 km skráða í kerfið.  Samtals eru komnir rúmir tveir sólarhringar á hjólinu.  Hrikalega gaman! 🙂

Hef ég bent á hvað það er frábært að geta stundum unnið að heiman?

Ég ákvað að vera heima í dag þar sem ég fann að hálsbólgan hafði aldeilis ekki skánað við það að vinna fullan vinnudag í gær.  Svo nú sit ég við tölvuna heima með Jólaóratóríuna í frábærum græjum, og get komið nokkurn veginn jafn miklu í verk og ég hefði gert í vinnunni.  En þetta má alveg fara að klárast, ég verð að mæta á kóræfingu í kvöld, það styttist í tónleika og ég þarf að æfa mig á trompetinn.  Það er ekki gott að spila þegar er alltaf hætta á hóstaköstum við það að anda djúpt inn!

Þeir hjá WordPress virðast hafa alveg undarlega lítið að gera

Ég hef ekki tölu á skiptunum sem þeir hafa skipt alveg um útlit á login síðunni, sem getur ekki verið það mikilvægasta í því að halda úti risavaxinni bloggþjónustu.  Það sem er undir húddinu sýnist mér hins vegar vera næstum óbreytt frá því ég færði mig frá gamla Blogger (sem mjög fáir virðast nota lengur).  En þetta virkar ágætlega svo kannski er allt í lagi að þeir leiki sér í forsíðuhönnun, ekki borgar maður krónu (a.m.k. ekki fyrir blogg af þessari stærð).