Dæmigerður mánudagur í gær

Vakna hálf sjö (tókst ekki, skreið fram úr 5 mínútur yfir sjö), hjóla í vinnuna þegar Karitas er komin í skólann (einn auka kaffibolli með Guðnýju fyrst).  Vinna til 19:00, hjóla í Sölvhól á Hljómeykisæfingu, syngja til 22:00, spjalla smá eftir að hafa skipt í hjólafötin og hjóla svo heim.  Kominn heim 23:00.

Af einhverjum ástæðum hafa þriðjudagsmorgnar tilhneigingu til að vera erfiðir…

Smá tilraun

Sér einhver þessa færslu?  Það eru liðin rétt tæp tvö ár frá því síðasta færsla kom og af einhverjum ástæðum langar mig að gera eina tilraun enn til að halda lífi í síðuómyndinni.  Ef einhver les þetta og hefur áhuga á að lesa meira má gjarnan láta vita í kommenti.

Hef ég ekki sagt það áður að desember sé galinn?

Hann er það að minnsta kosti í ár.  Tónleikar, æfingar, hellingur af vinnu, amma allra ælupesta og fleira skemmtilegt hefur séð til þess að ég hef varla haft tíma til að líta hér inn, hvað þá að skrifa.  Nú er hins vegar hægt að segja frá því að allt er að kalla tilbúið fyrir jólin, Karitas steinsefur (sem er mesta furða miðað við hvað hún er orðin yfirspennt fyrir morgundeginum) og Guðný er úti í kirkju að æfa sig fyrir jólamessurnar.  Þegar hún kemur til baka þarf ég svo að fara út og æfa mig fyrir Bucinae Boreales prógrammið á annan í jólum (Bach og Gabrieli ásamt öðru góðgæti, í messu í Fella- og Hólakirkju klukkan 11:00) og fyrir gamlárskvöld (þegar ég mun spila með Guðnýju í og á undan messunni).  Að öðru leyti má fara að anda út eftir mánuðinn, sérstaklega þar sem nú tekur við laaangt frí! 🙂

Hjólamont!

Í byrjun september fór ég að nota strava.com til að halda utan um hjólreiðarnar (bæði fyrir hjólreiðar til og frá vinnu og það sem ég hjóla mér til skemmtunar).  Á rétt rúmu 3ja mánaða tímabili (3. september til 6. desember er ég kominn með 1000 km skráða í kerfið.  Samtals eru komnir rúmir tveir sólarhringar á hjólinu.  Hrikalega gaman! 🙂

Hef ég bent á hvað það er frábært að geta stundum unnið að heiman?

Ég ákvað að vera heima í dag þar sem ég fann að hálsbólgan hafði aldeilis ekki skánað við það að vinna fullan vinnudag í gær.  Svo nú sit ég við tölvuna heima með Jólaóratóríuna í frábærum græjum, og get komið nokkurn veginn jafn miklu í verk og ég hefði gert í vinnunni.  En þetta má alveg fara að klárast, ég verð að mæta á kóræfingu í kvöld, það styttist í tónleika og ég þarf að æfa mig á trompetinn.  Það er ekki gott að spila þegar er alltaf hætta á hóstaköstum við það að anda djúpt inn!

Þeir hjá WordPress virðast hafa alveg undarlega lítið að gera

Ég hef ekki tölu á skiptunum sem þeir hafa skipt alveg um útlit á login síðunni, sem getur ekki verið það mikilvægasta í því að halda úti risavaxinni bloggþjónustu.  Það sem er undir húddinu sýnist mér hins vegar vera næstum óbreytt frá því ég færði mig frá gamla Blogger (sem mjög fáir virðast nota lengur).  En þetta virkar ágætlega svo kannski er allt í lagi að þeir leiki sér í forsíðuhönnun, ekki borgar maður krónu (a.m.k. ekki fyrir blogg af þessari stærð).

Svo ég haldi nú áfram að kvarta…

Það kemur sjálfsagt engum á óvart að helgar eins og þessi sem var að klárast eru ekki það besta ofan í kvef og hálsbólgu.  Eins og röddin hagar sér núna hef ég ekki hugmynd um í hvaða áttund ég verð næst þegar ég opna munninn til að segja eitthvað.  Ég hef farið upp í hásan helíumtenór og vel niður í kontraáttund, með ca. tíu mínútna millibili.  Þetta má alveg fara að klárast takk fyrir…

Haaa???

Samkvæmt statistics síðunni hjá WordPress er einn búinn að koma inn á bloggið mitt í dag frá Rússlandi!  Það er sennilega í fyrsta skiptið síðan ég byrjaði á þessu pikki fyrir rúmum 7 árum í Kaupmannahöfn.  Þetta er annars nokkuð skemmtilegur fídus hjá þeim, hvaða land ætli dúkki upp næst?

Og hvað skyldi ég ætla að gera í kvöld?

Ekki spurning.  Sinfó að spila STAR WARS!!!  Miðinn var keyptur í ágúst og ég er búinn að margtékka á dagsetningunni til að vera viss um að ruglast ekki…  Almennt er minn tónlistarsmekkur alveg ævintýralega gamaldags en þetta bara klikkar ekki.  Í raun var það tónlistin sem dró mig að myndunum en ekki öfugt.  Þegar nýju myndirnar voru í bíó fór ég tvisvar eða þrisvar á hverja, fyrst til að sjá myndina en eftir það var ég á tónleikum!

Hugmynd?

Bæði síðasta vetur og þennan höfum við Guðný (sérstaklega Guðný) fylgst talsvert vandlega með Dans(i) Dans(i) Dans(i) á laugardagskvöldum.  Þennan veturinn höfum við raunar haft tilhneigingu til að klippa aftanaf þáttunum þegar öll atriðin eru búin og hoppa beint í endann á netinu þar sem við horfum alltaf á þáttinn á plús (það þarf að ná Merlin fyrst og Karitas þarf að vera komin í rúmið áður en hægt er að horfa á hann!).  Ég er enginn sérstakur áhugamaður um dans, hef minna en ekkert vit á dansi og ég dett hvað eftir annað út í háalvarlegum nútímadansatriðum sem eiga að lýsa andlegu ástandi ostru á hafsbotni.  Það sem dregur mig að þessum þætti eru annars vegar flottustu atriðin sem þarf engan skilning á dansi til að sjá hversu vel eru gerð en hins vegar (og eiginlega ennþá frekar) metnaðurinn og kröfurnar sem dómnefndin gerir.  Þau eru nefnilega ekkert hrædd við að ætlast til að fólk KUNNI hlutina en hafi ekki bara gutlað sig í gegn einhvern veginn og ætli að komast áfram á einhverjum fíling og náttúrutalenti.  Fílingur og náttúrutalent koma ekki í staðinn fyrir nám og þjálfun, og tækniæfingar eru ekki snobb hvað sem Bubbi Morthens hefur gert á sínum ferli (svo tekið sé dæmi um mann sem óneitanlega hefur góðan skammt af bæði fíling og náttúrutalenti en hefur mér vitanlega ekkert lært í tónlist annað en það sem hann hefur fundið út sjálfur).  Það er hægt að komast ákveðið langt á þessu tvennu en svo kemur stopp (í færni, ég er ekki að tala um að “meika það”).

Hvernig væri að koma upp svona þætti fyrir tónlist?

Tónleikaplögg!!!

Á sunnudag 25. nóvember klukkan 20:00 og þriðjudag 27. nóvember klukkan 20:00 verða flottir Ungfóníutónleikar í Langholtskirkju, þar sem Guðný mun flytja orgelkonsert eftir Poulenc (rosaleg músík!) af stakri snilld.  Annað á efnisskránni eru ný verk (a.m.k. held ég að þau séu bæði ný) eftir Þóru Marteinsdóttur og Gunnstein Ólafsson (sem stjórnar) og messa eftir Schubert.  Háskólakórinn syngur.  Miðaverð er 2500 krónur.

Ég mæli hiklaust með að fólk skelli sér, maður fer aldrei á of marga tónleika! 🙂

Enn ein hjólafærslan

Það mætti halda að ég hugsaði ekki um annað, en það var frekar skrautlegt að hjóla í vinnuna í morgun og alveg svakalegt heim.  Allar beygjur teknar lúshægt til að fljúga ekki á hausinn, þrátt fyrir að vera á nýjum nagladekkjum sem hafa virkilega sannað sig núna í nóvember.  Það sem ég klikkaði á að gera var að hleypa lofti úr áður en ég lagði af stað (áttaði mig ekki á hvað hálkan væri mikil í morgun og svo hélt ég að hún væri farin þegar ég lagði af stað heim), dekkin eru naglalaus í miðjunni en með nagla til hliðanna svo maður hafi stuðning af þeim í beygjum.  Nú veitti bara ekkert af að hafa þá alltaf í snertingu við jörðina.  En ég slapp… 😉

Þvílíkir tónleikar!!!

Berliner Philharmoniker kann sko alveg að spila.  Húsið var troðfullt (og hefði sjálfsagt verið hægt að fylla tífallt stærra hús) og í lokin ætlaði allt um koll að keyra!  Prógrammið var frábært, ekki nema eitt stykki sem ég hafði heyrt áður (Wagner) og hvert einasta smáatriði við hverja einustu nótu algerlega magnað.

En það var merkilegt að Schumann skyldi kalla hornkonsert sinfóníu… 😉

p.s.  Og þetta var fjegurhundruðasta bloggfærslan mín…

Og nú var gaman að hjóla!

Þetta hef ég ekki prófað fyrr, að hjóla í snjó.  Það sem kom á óvart var í raun hversu létt var að halda hraða, það eina sem var greinilega erfiðara en á auðri jörð var að gefa í (spóóóóól!).  Það hjálpaði auðvitað til að það var búið að skafa og sanda Elliðaárdalinn eldsnemma í morgun og nagladekkin hjálpuðu sömuleiðis.  Það er engin spurning að þessu verður haldið áfram í allan vetur!

Og Guðný hjólaði alla leið í Neskirkju eins og ekkert væri!

Var ég ekki eitthvað að tala um hjólreiðar (fyrir langa löngu…)

Frá því um miðjan ágúst hef ég hjólað í vinnuna nánast hvern einasta dag, fyrst á racernum og svo á fjallahjólinu hans pabba (sem er komið á nagladekk).  Það er með hreinum ólíkindum hvað maður er í raun fljótur á staðinn á hjólinu.  Ég er um 15 mínútur að keyra í vinnuna (í venjulegri umferð, ekki klikkaðri morguntraffík), á fjallahjóli með nagladekk er ég yfirleitt um 22 mínútur.  Metið á racernum er 17:33!  Heimleiðin (sem liggur upp allan Elliðaárdal) hefur aldrei tekið meira en 35 mínútur, og það var í vitlausu veðri, yfirleitt er ég um 25 til 28 mínútur þá leiðina.  Það eina sem tekur viðbótartíma er að skipta um föt og fara í sturtu (sem er nauðsynlegt því ég get alls ekki sleppt því að taka á af öllum kröftum í hvert einasta sinn sem ég sest á hjól…).

Úff, maður gæti haldið að það væri að koma haust…

Það var kalt að hjóla í vinnuna í morgun, og rok í andlitið alla leið!  Ég er búinn að ákveða að hjóla í allan vetur en svona morgnar eru ekki til þess fallnir að hvetja mann áfram.  En það  er alveg með ólíkindum hvað það er mikið meira gaman að hjóla á almennilegu hjóli (eins og flotta racernum mínum!), en gömlum garmi.

Til tilbreytingar!

Aldrei slíku vant (a.m.k. ef maður rifjar ekki upp meira en 10 – 12 ár aftur í tímann) hefur verið almennilegur vetur undanfarið, með flottu skíðafæri í Bláfjöllum upp á hvern einasta dag.  Ennþá merkilegra er að við höfum komist á skíði!  Um daginn kom Karitas með í pulk sem vakti mikla aðdáun viðstaddra.  Og ofan í þessa snilld heyrir maður svo væl um hvað fólk sé orðið þreytt á snjónum!!

Og nýtt ár er komið, fyrir löngu…

Það brást aldrei á meðan þessi síða var sem virkust að yfir jól og áramót lá hún að kalla niðri.  Það kemur því varla á óvart að eftir nokkuð góðan nóvember og þokkalegan fyrri hluta desember skyldi koma alveg dauður tími.  En nú bætum við úr því eins og hægt er og hefjum nýtt bloggár, sem vonandi verður mun merkilegra en þau sem á undan eru liðin.

Gleðilegt ár!

Ný jólahefð

Það sem manni finnst algerlega nauðsynlegt til að jólin geti komið getur verið eitt og annað, og ástæðurnar fyrir því í raun hverjar sem er.  Hér á bæ er ein ný orðin til á síðustu þremur árum, og það eru heimagerðar flatkökur!  Ástæðan er einföld:  Þær eru bara svo miklu betri en úr búð, og með fullt af hangikjöti og smjöri eru þær hinn fullkomni jóladagsmorgunmatur.  Mmmmmmm…

Og áður en einhver spyr, Guðný bakar þær, ekki ég.